12.3.2009 | 19:18
Þjóðin krefst endurnýjunar á Alþingi
Gylfi Þór Þórisson býður sig fram í 5-7 sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Endurnýjun til endurreisnar.
Ég get ekki betur séð en að stjórnmálaflokkar á Íslandi séu ekki með þjóðarpúlsinn á hreinu. Framundan eru sögulegar kosningar á Íslandi. Kosningar sem skera úr um hvort að þjóðin velur til endurreisnar stefnu sem byggir á einstaklingsframtaki og hvatningu landsmanna um að byggja upp nýtt Ísland með traust, virðingu og gott siðferði að leiðarljósi eða stefnu sem byggist á miðstýringu og auknum skattaþyngslum.
Stjórnmálaflokkarnir hafa einstakt tækifæri á að axla ábyrgð á þeirri ófreskju sem þjóðfélagið er orðið. Tækifæri á að sýna þjóðinni að þeir séu tilbúnir að endurnýja á sýnilegan hátt framboðslista sína og bjóða fram frambærilegt fólk sem sýnir þverskurð af samfélaginu. Núna standa yfir forvöl og prófkjör hjá öllum flokkum. Samfylkingin í Reykjavík réð á vaðið og tilkynnti sínum flokksmönnum að efstu 3 sætin væru frátekin og að aðrir gætu síðan tekist á um önnur sæti, og að sjálfsögðu er engin endurnýjun þar á bæ. VG stendur fyrir forvali hjá félagsmönnum og fyrstu fréttir eru að sama fólkið raðast þar í efstu sæti, þó með undantekningum eins og í Reykjavíkurkjördæmi og óska ég þeim til hamingju með það.
Sjálfstæðisflokkurinn stendur einnig í prófkjöri þessa dagana. Í Reykjavík bjóða sig fram 29 aðilar, þar af eru 8 sitjandi þingmenn og nokkrir ungliðar úr flokkstarfinu. Skýlaus krafa er um endurnýjun á lista Sjálfstæðisflokksins og það verður fróðlegt að sjá hvort kjósendur í prófkjöri hafi hugrekki til að brjóta upp gamlar hefðir og stilla upp nýjum lista sem státar bæði af reyndu fólki sem og nýjum aðilum. Það er mitt mat að ef framboðslisti Sjálfstæðisflokks í kosningunum í vor verði nánast samansettur af sama fólki og síðast þá verði róðurinn erfiður og klárt að flokkurinn er ekki að hlusta á þjóðarsálina.
Ný stjórnmálaframboð gætu náð eyrum kjósenda ef núverandi flokkar hlusta ekki á kröfu almennings um endurnýjun. Stjórnmálaflokkar eru ekkert annað en fólkið sem kýs þá í kosningum, núna er tækifæri á að hlusta, læra og breyta.
Þjóðin stendur frammi fyrir erfiðum tímum og ljóst er að erfiðar ákvarðanir eru framundan hjá Alþingi og ráðamönnum til að koma Íslandi af stað á ný. Gamla pólitíkin á ekki við á komandi árum, núna hefst endurreisn og þá verða stjórnmálamenn að hlusta á og skilja þjóðarpúlsinn hverju sinni og vinna saman þvert á flokkadrætti til að ná þeim markmiðum sem heillavænlegast er fyrir þjóðina.
Ljóst er að ekki gengur að setja plástur á beinbrot, því verða margar ákvarðanir erfiðar og ákvarðanir sem koma hart niður á fyrirtæki og fjölskyldur í landinu. En við verðum að taka á vandanum núna strax til að geta hafið endurreisn. Því er mikilvægt að við kjósum á þing fólk sem hefur raunverulega tengsl við atvinnulífið og fólkið. Stór hluti þingmanna í dag eru svokallaðir atvinnuþingmenn sem oft á tíðum hafa tapað tengslum við almenning. Þessu þarf að breyta núna.
Ég hvet kjósendur í forvölum og prófkjörum að sýna hugrekki og endurnýja á raunverulegan hátt framboðslista stjórnmálaflokka Íslands.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:24 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.